Skólareglur

 

  • Nemendum ber að mæta stundvíslega í kennslustundir sínar, hóptíma, hljóðfæratíma sem og tónfræðatíma. Fjarvistir og ástæður fyrir þeim skulu tilkynntar á skólatíma. Skólinn gefur ekki leyfi úr kennslustundum ef ástæður sem gefnar eru upp þykja veigalitlar.

 

  • Ef óskað er leyfis úr kennslustundum skal forráðamaður biðja um það með góðum fyrirvara og eru þá ástæður metnar af kennara hverju sinni. Nemendum er skylt að mæta á æfingar fyrir tónleika, nema gildar ástæður liggi fyrir, og getur misbrestur á því leitt til þess að nemandi fái ekki að koma fram á þeim tónleikum. 


  • Mætingarskylda er 80%. Ef tímasókn nemenda fer niður fyrir það mark getur nemandi átt von á brottvísun úr skóla, þó ekki fyrr en eftir fund með foreldrum eða forráðamönnum viðkomandi nemanda.


  • Góð skólasókn er mjög mikilvæg vegna þess að nemandi sem mætir illa missir samhengið í náminu, á erfiðara með að fylgjast með og gæti að síðustu gefist upp í náminu. Einnig kemur stopul tímasókn í veg fyrir eðlilegar framfarir í hljóðfæraleik og um leið dvínar áhuginn.


  • Ef kennari veikist og tími fellur niður er alltaf reynt að ná sambandi við nemendur eða forráðamenn til að koma í veg fyrir óþarfa ferð nemandans. Í flestum tilvikum tekst þetta en þó getur orðið misbrestur á því að það náist í nemanda eða foreldra í síma eða tölvupósti.


  • Ef kennari er veikur um lengri tíma mætir skólinn því eftir aðstæðum hverju sinni. Skólanum er ekki skylt að bæta upp tímatap vegna veikinda nemenda en ef veikindi kennara eru meira en einn mánuður falla skólagjöld niður í hlutfalli.


  • Ætli nemandi að koma fram utan skólans (t.d. á skólaskemmtunum) ætti hann að láta kennara sinn vita með góðum fyrirvara. Þessi regla skal í heiðri höfð, ekki vegna þess að tónlistarskólinn vilji koma í veg fyrir að nemandi komi fram opinberlega heldur eingöngu til þess að kennarinn geti fylgst með ferli nemanda síns og tryggt að það sem nemandi flytur sé vel æft og frambærilegt hvort sem er í skólanum eða utan.


  • Komi upp hegðunarvandkvæði með einstaka nemendur, áskilur skólinn sér rétt til að taka á slíkum málum í samvinnu við foreldra.

 

Fjarðabyggð, 21. október, 2024